Selfoss tapaði 80-102 gegn Fjölni í fjörugum leik í Vallaskóla á Selfossi í dag, þegar liðin mættust í 1. deild kvenna í körfubolta.
Fjölnir fór betur af stað í leiknum en Selfoss jafnaði 12-12 um miðjan 1. leikhluta og staðan var 19-19 að honum loknum. Annar leikhluti var í járnum framan af, Fjölnir reyndi að stíga á bensíngjöfina en Selfoss barðist fyrir sínu og komst yfir 36-34. Þá kom 14-3 áhlaup hjá gestunum og staðan var 39-48 í hálfleik.
Það voru sveiflur í 3. leikhluta, Fjölnir náði 17 stiga forskoti en þá kom frábær kafli hjá Selfyssingum sem minnkuðu muninn í 59-63. Fjölnir leiddi inn í 4. leikhlutann en Selfoss var aldrei langt undan þar til um miðjan 4. leikhluta að Fjölniskonur skoruðu 14 stig í röð og gerðu endanlega út um leikinn.
Valdís Una Guðmannsdóttir var stigahæst Selfyssinga með 18 stig og Anna Katrín Víðisdóttir skoraði 15 en Donasja Scott var framlagshæst með 14 stig, 18 fráköst og 8 stolna bolta.
Selfoss er nú í 5. sæti deildarinnar með 6 stig en Fjölnir í 3. sæti með 10 stig en Fjölniskonur hafa leikið tveimur leikjum fleiri en Selfoss.
Selfoss-Fjölnir 80-102 (19-19, 20-29, 21-20, 20-34)
Tölfræði Selfoss: Valdís Una Guðmannsdóttir 18, Anna Katrín Víðisdóttir 15/5 stoðsendingar, Donasja Scott 14/18 fráköst/8 stolnir, Eva Rún Dagsdóttir 12/4 fráköst/8 stoðsendingar, Vilborg Óttarsdóttir 9, Perla María Karlsdóttir 5/4 fráköst, Þóra Auðunsdóttir 4, Kolbrún Katla Halldórsdóttir 3, Elín Þórdís Pálsdóttir 2 stolnir/1 frákast.