Selfoss var grátlega nálægt því að leggja Val að velli í Pepsi-deild kvenna í knattspyrnu í kvöld. Leiknum lauk með jafntefli en Valur jafnaði 1-1 þegar þrjár mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma.
„Já, þetta var mjög svekkjandi því við vorum búnar að eiga fínan leik. En Valsliðið er mjög gott og við verðum að taka þessu stigi fagnandi eins og öllum öðrum stigum sem við vinnum okkur inn. En við lögðum okkur fram í leiknum og hefðum að sjálfsögðu viljað uppskera þrjú stig,“ sagði Alfreð Elías Jóhannsson, þjálfari Selfoss, í samtali við sunnlenska.is eftir leik.
Valur byrjaði leikinn af krafti en Selfyssingar vörðust skipulega og lentu aldrei í teljandi vandræðum. Í þau fáu skipti sem vörnin opnaðist varði Caitlyn Clem allt sem að marki kom en hún var maður leiksins í kvöld með nokkrar frábærar vörslur.
Erna Guðjónsdóttir kom Selfyssingum yfir með glæsimarki á 34. mínútu. Eftir snarpa sókn Selfoss barst boltinn aftur út fyrir vítateiginn þar sem Erna lét vaða og boltinn fór í laglegum boga yfir Söndru í marki Vals.
Staðan var 1-0 í leikhléi og Selfyssingar höfðu góð tök á leiknum í seinni hálfleik. Valskonur gerðu sig ekki líklegar fyrr en á síðustu tíu mínútunum og þær uppskáru jöfnunarmark á 87. mínútu þegar Pála Marie Einarsdóttir skaut að marki, boltinn fór í varnarmann Selfoss og snerist í háum boga rétt undir þverslána og í netið.
Selfoss hefur nú 9 stig í 7. sæti deildarinnar en Valur er í 3. sæti með 20 stig.