Svekkjandi tap gegn botnliðinu

Karlalið Hamars varð fyrsta liðið í vetur til að tapa fyrir botnliði Þórs Akureyri í 1. deildinni í körfubolta. Liðin mættust á Akureyri í kvöld þar sem heimamenn sigruðu á flautukörfu, 83-80.

Hamar byrjaði betur og komst í 4-12 áður en Þórsarar tóku við sér og komust yfir, 19-18, undir lok 1. leikhluta. Þór náði níu stiga forskoti, 30-21, í upphafi 2. leikhluta en Hamar svaraði með 11-1 leikkafla og komst yfir, 35-38. Þórsarar skoruðu síðustu fimm stigin í fyrri hálfleik og staðan var 40-38 í leikhléinu.

Seinni hálfleikur var jafn og spennandi en Þórsarar höfðu frumkvæðið allan 3. leikhluta og frameftir þeim fjórða. Staðan var 61-60 að loknum 3. leikhluta og fjórði leikhlutinn var hnífjafn.

Þegar rúmar fjórar mínútur voru eftir settu Þórsarar niður fimm stig í röð og komust í 78-72. Hamar svaraði með átta stigum í röð og staðan var 78-80 þegar 49 sekúndur voru eftir af leiknum. Þórsarar jöfnuðu þegar 12 sekúndur voru eftir og Hamar tók leikhlé fyrir síðustu sóknina. Þar lét Brandon Cotton hins vegar Eric Palm stela af sér boltanum og þakkaði Palm fyrir sig með því að setja niður þrist um leið og lokaflautan gall.

Palm var að spila sinn fyrsta leik með Akureyringum í vetur en hann var einn besti leikmaður Þorlákshafnar-Þórsara í fyrravetur. Hann var stigahæstur Akureyringa í kvöld með 22 stig.

Brandon Cotton var stigahæstur hjá Hamri með 25 stig, Louie Kirkman skoraði 19 og tók 10 fráköst og Svavar Páll Pálsson skoraði 13.

Fyrri greinÞórsarar töpuðu í undanúrslitum
Næsta greinHveragerði í átta liða úrslit