Ægismenn lutu í lægra haldi þegar þeir tóku á móti Létti í A-riðli 3. deildar karla í knattspyrnu í kvöld. Gestirnir sigruðu 3-4.
Ægismenn byrjuðu betur og komust yfir strax á 6. mínútu þegar Magnús Helgi Sigurðsson fékk boltann inni á vítateignum og setti hann í netið. Eftir markið var leikurinn jafn, Léttismenn fengu nóg pláss til að ráða ferðinni úti á vellinum en Ægismenn áttu beittari sóknir.
Á 36. mínútu var Magnús Helgi aftur á ferðinni í teignum en nú sá markvörður gestanna við honum. Tveimur mínútum síðar átti Ingi Rafn Ingibergsson góðan sprett inn í vítateig Léttis og átti skot að marki sem virtist vera á leið yfir marklínuna. Magnús Helgi ákvað að hjálpa boltanum yfir línuna en hann var rangstæður svo markið var réttilega dæmt af.
Á lokamínútu fyrri hálfleiks fengu Léttismenn dauðafæri en afgreiddu boltann yfir markið af stuttu færi. Þeim brást þó ekki bogalistin í næstu sókn, eftir góðan sprett upp vinstri kantinn barst boltinn inn á teiginn þar sem einn Léttismanna var óvaldaður og skoraði af öryggi. 1-1 í hálfleik.
Strax á þriðju mínútu síðari hálfleik átti Ivan Razumovis skot rétt yfir mark Léttis eftir hornspyrnu en stærstan hluta seinni hálfleiks höfðu Léttismenn góð tök á leiknum og Ægismenn ógnuðu lítið. Gestirnir komust yfir, 1-2, á 60. mínútu eftir innkast og klafs í vítateignum þar sem boltinn féll að lokum fyrir fætur Léttismanns sem skoraði.
Þegar fimmtán mínútur voru eftir sóttu Ægismenn í sig veðrið og voru líklegri til að skora en á 78. mínútu gleymdu þeir sér í vörninni og fengu skyndisókn í bakið þar sem gestirnir komust í 1-3. Þremur mínútum síðar varði Magnús Karl Pétursson, markvörður Ægis, meistaralega tvívegis í sömu sókninni. Í síðara skiptið fór boltinn í horn og uppúr hornspyrnunni sköpuðu Léttismenn enn á ný usla í vítateig Ægis.
Á lokamínútu leiksins komust gestirnir svo í 1-4 þegar Ægismenn voru steinsofandi í vörninni og nú virtust gestirnir hafa gert út um leikinn. Sú var þó ekki raunin því uppbótartíminn var drjúgur og á 93. mínútu minnkaði Ingi Rafn muninn í 2-4 með góðu skoti úr teignum eftir góðan undirbúning Alfreðs Jóhannsonar. Tveimur mínútum síðar var brotið á Milan Djurovic innan vítateigs og Ingi Rafn fór á vítapunktinn og skoraði af öryggi.
Nær komust Ægismenn ekki því dómari leiksins flautaði af skömmu síðar og heimamenn gengu svekktir af velli.
Ægismenn eru í 6. sæti eftir fjóra leiki með fjögur stig.