Sverrir ekkert með í vetur

Sverrir Pálsson í einvíginu gegn Haukum í vor. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Varnarmaðurinn sterki, Sverrir Pálsson, sleit krossband í hægra hné í æfingaleik á Akureyri um síðustu helgi. Þetta eru slæm tíðindi fyrir Íslandsmeistara Selfoss í handbolta en keppni í Olísdeild karla hefst um næstu helgi.

„Fremra krossbandið er slitið og ég fer í aðgerð í lok september. Það er því miður ólíklegt að ég nái eitthvað að vera með í vetur og þetta er mjög svekkjandi. Ég stefni bara á að koma sterkari til baka,“ sagði Sverrir í samtali við sunnlenska.is.

Sverrir skilur eftir sig stórt skarð í vörn Selfossliðsins en hann fór á kostum í úrslitakeppni Íslandsmótsins í vor og sannaði sig sem einn sterkasti varnarmaður deildarinnar. 

Stórskyttan Einar Sverrisson er einnig frá vegna meiðsla en hann reif krossband í mars og fór í aðgerð í kjölfarið. Einar stefnir á að vera byrjaður að æfa af krafti í febrúar.

Fyrri greinRýmri tími til rjúpnaveiði
Næsta grein„Lofa skemmtilegu kvöldi“