„Svo kom bara B-O-B-A frá Fríðu“

Hólmfríður Magnúsdóttir og Kaylan Marckese fögnuðu vel eftir leik. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Bikarmeistarar Selfoss eru komnir í undanúrslit bikarkeppni kvenna í knattspyrnu eftir frábæran sigur á Íslandsmeisturum Vals á Selfossvelli í kvöld. Lokatölur urðu 1-0 og lokakaflinn var dramatískur.

„Þetta var skemmtilegur leikur, stál í stál, við vorum sterkari í fyrri hálfleik og hefðum átt að gera betur með svona léttum vindi. Svo bætti í vindinn í seinni hálfleik og við áttum aðeins erfitt, sér í lagi um miðjan seinni hálfleikinn þar sem þær lágu dálítið á okkur. Við náðum að standa það af okkur og svo kom bara B-O-B-A frá Fríðu. Annars var þetta einn af okkar betri leikjum varnarlega í sumar og Kaylan var geggjuð í markinu. Við ætlum okkur alla leið í þessari keppni og erum tilbúin í næstu orrustu,“ sagði Alfreð Elías Jóhannsson, þjálfari Selfoss, í samtali við sunnlenska.is eftir leik.

Selfyssingar voru sterkari í fyrri hálfleik en náðu ekki að skora þrátt fyrir ágætar sóknir. Staðan var 0-0 í hálfleik og dæmið snerist við í seinni hálfleik þar sem Valskonur tóku leikinn í sínar hendur að miklu leiti.

Tvær frábærar vörslur Marckese
Þrjú risastór atvik réðu úrslitum í leiknum. Á 73. mínútu fengu Valskonur dauðafæri sem Kaylan Marckese varði frábærlega í marki Selfoss. Tveimur mínútum síðar brunaði Dagný Brynjarsdóttir upp völlinn og sendi snyrtilega sendingu til hliðar á Hólmfríði Magnúsdóttur sem kom á meiri ferðinni og negldi boltanum í netið af vítateigslínunni. Frábært mark!

Valskonur voru ekki hættar og þær fengu dæmda vítaspyrnu þremur mínútum fyrir leikslok þegar boltinn fór í höndina á Clöru Sigurðardóttur innan vítateigs. Elín Metta Jensen steig á punktinn og tók góða spyrnu út við stöng en þar var Marckese mætt og varði glæsilega.

Lokamínúturnar voru taugastrekkjandi því þó að sáralitlar tafir hafi orðið á leiknum fann dómarinn langan uppbótartíma. Kannski voru sekúndurnar bara svona lengi að líða en það kom ekki að sök og Selfyssingar eru komnir í undanúrslit.

Undanúrslit í nóvember
Undanúrslitin verða ekki leikin fyrr en í vetur þar sem keppninni hefur seinkað vegna COVID-19. Undanúrslitaleikirnir fara fram 1. nóvember og úrslitaleikurinn sex dögum síðar.
Auk Selfyssinga eru Þór/KA, KR og Breiðablik komin í undanúrslitin.

Fyrri greinÖlfusárbrú lokuð til vesturs í kvöld
Næsta grein13,4 milljónir króna til sunnlenskra íþróttafélaga