Kvennalið Selfoss heimsótti Fylki í A-deild deildarbikars kvenna í knattspyrnu í kvöld.
Selfyssingar byrjuðu illa og fengu á sig tvö mörk á fyrstu sex mínútum leiksins. Elsa Katrín Stefánsdóttir minnkaði muninn fyrir Selfoss á 17. mínútu en Fylkir bætti í og skoraði tvö mörk til viðbótar fyrir hálfleik. Staðan var 4-1 í leikhléi.
Selfoss náði vopnum sínum á nýjan leik í seinni hálfleik og Unnur Dóra Bergsdóttir og Auður Helga Halldórsdóttir skoruðu báðar með stuttu millibili á fyrsta korterinu. Selfyssingum tókst ekki að finna jöfnunarmarkið og það voru Fylkiskonur sem áttu lokaorðið og skoruðu sitt fimmta mark á 71. mínútu. Lokatölur 5-3.
Þetta var síðasti leikur liðanna í riðlinum, Selfoss situr á botni hans án stiga en Fylkir er í 3. sætinu með 7 stig.