Selfyssingar eru komnir í 8-liða úrslit Mjólkurbikars kvenna í knattspyrnu eftir góðan sigur á Aftureldingu á heimavelli í dag.
Selfyssingar voru sterkari í fyrri hálfleiknum og því var það nokkuð gegn gangi leiksins þegar Selfossvörnin opnaðist og Afturelding komst yfir á 36. mínútu.
Staðan var 0-1 í hálfleik en Selfoss sneri leiknum sér í vil á þriggja mínútna kafla snemma í seinni hálfleik. Miranda Nild jafnaði á 58. mínútu með góðu skoti úr teignum eftir snarpa sókn Selfoss og Brenna Lovera kom boltanum aftur í netið á 61. mínútu eftir fyrirgjöf frá Barbáru Sól Gísladóttur.
Afturelding sótti í sig veðrið á lokakaflanum en Embla Dís Gunnarsdóttir gerði vonir þeirra að engu þegar hún skoraði þriðja mark Selfoss í uppbótartímanum með hnitmiðuðu skoti úr teignum. Lokatölur 3-1 og Selfoss verður í pottinum þegar dregið verður í 8-liða úrslitin.