„Sýndum okkar verstu og bestu hliðar“

Ágúst Björgvinsson, þjálfari Hamarskvenna, tók úrslitum dagsins með stóískri ró en Hamar tapaði fyrsta deildarleik sínum í vetur þegar liðið mætti Keflavík.

Nú munar fjórum stigum á Hamri og Keflavík þegar þrjár umferðir eru eftir í deildinni. Hamar hefði getað tryggt sér deildarmeistaratitilinn í dag en Keflavík á ennþá möguleika.

„Það var auðvitað tilhlökkun fyrir leikinn. Við hefðum getað tekið við bikarnum í dag og erum að fara í tólf daga frí þannig að það hefði verið rosalega gaman að lyfta honum núna. Ég veit ekki hvort þetta truflaði okkur eitthvað í leiknum en við fáum vonandi tækifæri til að lyfta þessum bikar síðar,“ sagði Ágúst Björgvinsson, þjálfari Hamars, í leikslok.

Hamar byrjaði vel og náði tíu stiga forskoti í leiknum en Keflavík svaraði með 31-4 leikkafla í 2. leikhluta. „Svæðisvörnin þeirra sló okkur eitthvað út af laginu í upphafi 2. leikhluta. Þær skora 39 stig á tíu mínútum sem er rúmlega 40% af stigum þeirra í leiknum. Það er mjög súrt að horfa upp á það en það kom eitthvað fát á okkur. Við hittum illa og gáfum þeim auðveld skot aftur og aftur,“ sagði Ágúst en hann var ánægður með hvernig Hamar svaraði fyrir sig.

„Við komum til baka eftir að hafa lent 22 stigum undir og setjum okkur í þá stöðu að geta unnið þennan leik. Þetta var kaflaskipt og það er óhætt að segja að við höfum sýnt okkar verstu og bestu hliðar í sama leiknum.“

Fyrir leikinn hafði Hamar sigrað í sextán deildarleikjum í röð og átti stutt eftir í að fara ósigraðar í gegnum deildarkeppnina. Ágúst segir þá tölfræði skipta litlu máli. „Markmið okkar var ekki að fara taplausar gegnum mótið. Markmiðið er að landa fyrsta titlinum í sögu félagsins og við erum ansi nálægt því. Það er okkar aðalmarkmið. Ef liðið hefði farið taplaust í gegnum tímabilið þá hefði það bara verið bónus. Það hafa verið mögnuð lið í deildinni í gegnum tíðina en ég man ekki eftir því að það hafi gerst að lið hafi farið ósigrað í gegnum mótið. Við erum ekki það langt á undan liðunum í deildinni en við höfum verið að spila vel í vetur og það verður vonandi áframhald á því.“

Fyrri greinFyrsta tap Hamars í deildinni
Næsta greinListamannsspjall í dag