Þorlákshafnar-Þórsarar fóru illa að ráði sínu í kvöld þegar þeir töpuðu fyrir föllnu liði Hattar í úrvalsdeild karla í körfubolta á útivelli. Þór er í harðri baráttu um sæti í úrslitakeppninni.
Hattarmenn byrjuðu betur í leiknum og náðu mest sjö stiga forskoti en Þór kom til baka undir lok 1. leikhluta og minnkaði muninn í tvö stig, 30-28. Höttur var áfram skrefi framar í 2. leikhluta en Þórsarar voru aldrei langt undan og staðan í hálfleik var 62-58.
Þórsarar byrjuðu seinni hálfleikinn á áhlaupi og náðu tólf stiga forskoti, 70-82. Þór hélt forystunni þar til tæpar þrjár mínútur voru eftir en þá syrti snögglega í álinn. Þórsurum tókst aðeins að skora eitt stig á þeim tæpu þremur mínútum sem eftir lifðu leiks á meðan allt fór ofaní hjá heimamönnum og Höttur sigraði að lokum 103-95.
Mustapha Heron var stiga- og framlagshæstur hjá Þór með 25 stig og Nikolas Tomsick skoraði 19 stig, tók 7 fráköst og sendi 7 stoðsendingar.
Baráttan um sæti í úrslitakeppninni er hrikalega jöfn en Þórsarar eru nú með 18 stig í 9. sæti þegar tvær umferðir eru eftir, tveimur stigum á eftir Álftanesi sem er í 5. sætinu.
Höttur-Þór Þ. 103-95 (30-28, 32-30, 13-26, 28-11)
Tölfræði Þórs: Mustapha Heron 25, Nikolas Tomsick 19/7 fráköst/7 stoðsendingar, Justas Tamulis 16, Jordan Semple 13/5 fráköst, Ólafur Björn Gunnlaugsson 12/9 fráköst, Emil Karel Einarsson 6/4 fráköst, Ragnar Örn Bragason 4.