FSu fékk Skallagrím í heimsókn í Iðu á Selfossi í kvöld þegar keppni hófst í 1. deild karla í körfubolta. Gestirnir fóru með sigur af hólmi, 82-88.
Eftir jafnræði framan af 1. leikhluta áttu gestirnir 14-2 kafla undir lok leikhlutans þar sem þeir náðu fjórtán stiga forskoti, 18-32. FSu liðið hresstist aftur í 2. leikhluta en náði ekki að vinna niður forskotið. Staðan var 43-56 í leikhléi.
Heimamenn voru sterkari í síðari hálfleik og náðu að minnka muninn í eitt stig, 62-63 þegar rúmar þrjár mínútur voru eftir af 3. leikhluta. Þá kom 12-2 áhlaup frá Borgnesingum sem breytti stöðunni í 64-75.
Síðasti fjórðungurinn var æsispennandi. FSu náði að minnka muninn í eitt stig þegar tæpar fjórar mínútur voru eftir, 78-79, og hlutirnir virtust ætla að falla með heimamönnum þar sem Borgnesingum var fyrirmunað að hitta ofan í körfuna á þessum kafla.
Á lokamínútunum voru Borgnesingar hins vegar sterkari og nýttu sínar sóknir betur. FSu átti ennþá von á lokasekúndunum en fundu ekki þriggja stiga skotið þegar þeir þurftu á því að halda í stöðunni 82-87 og Hlynur Hreinsson þurfti að skjóta úr slæmri stöðu og hitti ekki. Gestirnir héldu haus og sigruðu 82-88.
Ari Gylfason var bestur í liði FSu, skoraði 21 stig og tók 9 fráköst. Florijan Jovanov átti líka ágætan leik, sem og Haukur Hreinsson en þeir skoruðu báðir 17 stig og Jovanov tók 12 fráköst að auki.
Jett Speelman, Bandaríkjamaðurinn í liði FSU, tók út leikbann í leiknum í kvöld.
Tölfræði FSu: Ari Gylfason 21/9 fráköst, Haukur Hreinsson 17, Florijan Jovanov 17/12 fráköst, Sveinn Gunnarsson 9, Hlynur Hreinsson 7/5 stoðsendingar, Jón Þráinsson 4, Maciek Klimaszewski 4/4 fráköst, Svavar Stefánsson 3/4 fráköst.