Þór Þorlákshöfn missti af mikilvægum stigum í baráttunni um sæti í úrslitakeppni Domino’s-deildar karla í körfubolta í kvöld. Keflavík kom í heimsókn í Höfnina og sigraði 76-79.
Keflavík tók forystuna strax í upphafi og munurinn jókst lítillega fyrstu þrjá leikhlutana. Þórsarar voru hins vegar aldrei langt undan og staðan í hálfleik var 35-44.
Það dró loks til tíðinda í upphafi 4. leikhluta þegar Þórsarar gerðu 16-2 áhlaup og náðu að breyta stöðunni úr 50-68 í 66-70. Heimamönnum tókst ekki að komast yfir og Keflvíkingar náðu að halda aftur af þeim á lokakaflanum. DJ Balantine minnkaði muninn í 76-77 með þriggja stiga skoti þegar átta sekúndur voru eftir en Keflvíkingar kláruðu leikinn á vítalínunni.
Þór hefur nú 12 stig í 9. sæti deildarinnar, þegar 16 umferðir hafa verið leiknar. Fjórum stigum munar á Þórsurum og Stjörnunni og Keflavík sem eru í síðustu sætunum inn í úrslitakeppnina.
Tölfræði Þórs: DJ Balentine II 29, Halldór Garðar Hermannsson 18/6 fráköst, Emil Karel Einarsson 7/10 fráköst, Davíð Arnar Ágústsson 6, Óli Ragnar Alexandersson 6, Chaz Calvaron Williams 5/4 fráköst, Snorri Hrafnkelsson 4, Ólafur Helgi Jónsson 1/8 fráköst.