Tæpt í lokin gegn Tindastól

Nikolas Tomsick. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Þór Þorlákshöfn tapaði naumlega gegn Tindastóli í fyrstu viðureign liðanna í úrslitakeppni úrvalsdeildar karla í körfubolta í kvöld, 112-105.

Leikurinn var bráðfjörugur og mikið skorað. Þórsarar fóru betur af stað og röðuðu niður 33 stigum í 1. leikhluta. Heimamenn svöruðu fyrir sig í 2. leikhluta en staðan í hálfleik var 53-55, Þór í vil.

Seinni hálfleikurinn var jafn og spennandi en Þórsarar lokuðu 3. leikhluta með tveimur þriggja stiga körfum í röð og þá var staðan 79-83. 

Fjórði leikhluti hófst á þriggja stiga skothríð af beggja hálfu en Tindastóll náði í kjölfarið átta stiga forskoti eftir 12-2 áhlaup um miðjan leikhlutann. Þór svaraði með átta stigum í röð og leikurinn í járnum þegar tæplega ein og hálf mínúta var eftir. 

Þórsurum gekk hins vegar bölvanlega að nýta sóknirnar á lokakaflanum á meðan heimamenn voru komnir í bónus og röðuðu niður vítaskotunum. Þór skoraði aðeins þrjú stig gegn tíu á þessum kafla og lokatölur urðu 112-105.

Nikolas Tomsick átti stórleik fyrir Þór, skoraði 39 stig og sendi 7 stoðsendingar en hann skoraði sjö þriggja stiga körfur í leiknum. Kinu Rochford og Halldór Garðar Hermannsson voru sömuleiðis öflugir.

Liðin mætast næst í Þorlákshöfn á mánudagskvöld.

Tölfræði Þórs: Nikolas Tomsick 39/7 stoðsendingar, Halldór Garðar Hermannsson 18/5 stoðsendingar, Kinu Rochford 16/8 fráköst/5 stoðsendingar, Jaka Brodnik 15/4 fráköst, Ragnar Örn Bragason 11/5 fráköst, Emil Karel Einarsson 3, Davíð Arnar Ágústsson 3/5 fráköst.

Fyrri greinStrætisvagn fauk útaf
Næsta greinViðar 🤐rn svaraði kallinu