Taka svartbeltispróf á laugardaginn

(Aftari röð f.v.) Katla Mist, Viktoría Björg, Þórunn og Dagný María. (Fremri röð f.v.) Veigar Elí, Loftur, Ingibjörg Laufey og Úlfur Darri. Á myndina vantar Juliu Wiktoriu Sakowicz frá Hellu. Ljósmynd/Aðsend

Sjö iðkendur hjá taekwondodeild Umf. Selfoss undirbúa sig nú fyrir að þreyta próf fyrir svart belti sem telst til 1. Dan í taekwondo. Í hópnum er sömuleiðis einn iðkandi frá taekwondodeild Umf. Heklu á Hellu og annar iðkandi þar þreytir próf fyrir 2. Dan.

Beltagráðanir í taekwondo eru til að prófa kunnáttu og getu nemenda og nær einnig til tækni og viðhorfs. Það er ekki nóg að geta gert tæknina með lágmarks fyrirhöfn, heldur þarf líka að sýna aga, ákveðni og hjálpsemi.

Prófið, sem fer fram laugardaginn 21. desember næstkomandi á Selfossi, er stór áfangi fyrir krakkana og hafa þau lagt mikið á sig til að ná þessum árangri. Þetta er beltapróf sem krefst mikillar reynslu, æfinga, þjálfunar og aga svo fátt eitt sé nefnt. Það sem er líka áhugavert er að þeir yngstu sem eru að taka prófið eru ekki nema 13 ára og elsti iðkandinn er 18 ára. Krakkarnir hafa flestir æft taekwondo frá barnsaldri, hafa sýnt mikla elju og metnað á æfingum, eru góðar fyrirmyndir og hafa tekið virkan þátt í þjálfun yngri iðkenda innan deildarinnar.

Taekwondo sem er kóresk bardagalist, er byggð á aldagamalli sjálfsvarnarlist sem Kóeubúar fundu upp fyrir um tvöþúsund árum. Í dag er taekwondo íþrótt þar sem keppt er í poomse (form), kyourgi (bardagi) og kykopa (brot).

Krakkarnir stefna á æfingabúðir í Kóreu, næstkomandi vor og verður það mikið ævintýri fyrir þau að heimsækja upprunaland íþróttarinnar sem þau stunda og hafa ástríðu fyrir.

Fyrri greinKosning hafin á íþróttafólki Árborgar 2024
Næsta greinVinsælustu jólabækurnar og kakó á Þorláksmessu