Tanja og Aníta sæmdar starfsmerki Fimleikasambands Íslands

Tanja og Aníta ásamt Sólveigu Jónsdóttir, framkvæmdastjóra Fimleikasambands Íslands. Ljósmynd/Inga Heiða Heimisdóttir

Tanja Birgisdóttir, yfirþjálfari og Aníta Þorgerður Tryggvadóttir, deildarstjóri hjá fimleikadeild Umf. Selfoss voru sæmdar starfsmerki Fimleikasambands Íslands síðastliðinn laugardag.

Tanja og Aníta hafa báðar unnið í fimleikahreyfingunni í fjölda ára og starfa í dag báðar sem fimleikaþjálfarar í fullu starfi. Þær hafa báðar unnið sem landsliðsþjálfarar, Tanja í þremur verkefnum og Aníta í tveimur, auk þess sem þær hafa báðar setið í tækninefnd hópfimleika hjá Fimleikasambandi Íslands.

Aníta er menntaður íþróttaþjálfari, hefur byggt upp fimleikadeildir víðsvegar um Suðurland og brennur fyrir því að byggja upp gott fimleikastarf og að hjálpa iðkendum að ná enn lengra í sinni íþrótt. Hún hefur einnig séð um hæfileikamótun hjá Fimleikasambandi Íslands í tvígang og nær einstaklega við til iðkenda á öllum getustigum.

Tanja leggur sem yfirþjálfari mikið upp úr að það sé gott fimleikastarf á Selfossi og að iðkendur þurfi ekki að æfa á höfuðborgarsvæðinu til þess að fá góða þjálfun. Hún leggur mikla vinnu í teymisvinnu þjálfara og þjálfar upp góða þjálfara með því að para þá með þeim reynslumeiri í þjálfun. Hún sér um allt faglegt starf hjá deildinni og er í mjög góðum samskiptum við þjálfara, iðkendur og foreldra. Að auki þjálfar hún í einu fimleikaakademíu landsins sem
og tvo elstu flokka Selfoss, sem hafa náð eftirtektarverðum árangri síðustu ár.

Það var Sólveig Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Fimleikasambands Íslands, sem heiðraði stöllurnar eftir eina af jólasýningum fimleikadeildarinnar en deildin sýndi þrjár sýningar fyrir fullu húsi á laugardaginn.

Fyrri greinVinsælustu jólabækurnar og kakó á Þorláksmessu
Næsta greinHamar/Þór á botninum um jólin