Selfyssingar töpuðu fyrir Aftureldingu í N1 deild karla í handbolta þegar liðin mættust á Selfossi í kvöld, 24-26.
Selfyssingar byrjuðu betur og komust í 5-3 en Mosfellingar unnu sig strax inn í leikinn og jöfnuðu 6-6. Barningurinn var mikill inni á vellinum og lítið skorað en seint í fyrri hálfleik skoruðu gestirnir fimm mörk í röð og breyttu stöðunni úr 7-6 í 7-11. Selfoss skoraði tvö síðustu mörkin í fyrri hálfleik og staðan var 9-11 í leikhléi.
Mosfellingar náðu þriggja marka forskoti í upphafi fyrri hálfleiks, 11-14, en þá kom góður kafli hjá Selfyssingum þar sem allt virtist ætla að smella saman. Þegar tíu mínútur voru eftir af leiknum var staðan 20-17 fyrir Selfoss en þá skoraði Afturelding fjögur mörk í röð. Á lokakaflanum gekk ekkert í sókninni hjá Selfyssingum og gestirnir úr Mosfellsbæ unnu sanngjarnan sigur enda vel studdir af stuðningsmannafélaginu Rothögginu.
Atli Kristinsson var markahæstur Selfyssinga með 7 mörk, Ragnar Jóhannsson skoraði 6, Guðjón Drengsson 5/2, Helgi Héðinsson 2 og þeir Hörður Bjarnarson, Atli Einarsson, Einar Héðinsson, Árni Steinn Steinþórsson og Eyþór Lárusson skoruðu allir eitt mark. Birkir Fannar Bragason varði 16 skot í marki Selfoss.