Selfoss tapaði 98-70 þegar liðið heimsótti Breiðablik í 1. umferð 1. deildar karla í körfubolta í kvöld.
Selfyssingar mættu með laskað lið til leiks en nokkra lykilmenn vantaði og þar á meðal Bandaríkjamanninn Christian Cunningham.
Þrátt fyrir það áttu Selfyssingar fína kafla framan af leiknum en Breiðablik hafði forystuna allan tímann og leiddi 48-41 í leikhléi. Munurinn jókst jafnt og þétt í seinni hálfleiknum og að lokum skildu 28 stig liðin að.
Ragnar Magni Sigurjónsson var stigahæstur Selfyssinga með 19 stig, Alexander Gager skoraði 18, Kristijan Vadovic 11, Bergvin Einir Stefánsson 6, Arnór Bjarki Eyþórsson og Svavar Ingi Stefánsson 5, Sveinn Hafsteinn Gunnarsson 3, Rhys Sundimalt 2 og Bjarki Friðgeirsson 1.