Selfoss tapaði 2-1 þegar liðið mætti Breiðabliki í hörkuleik á útivelli í Pepsi Max deild kvenna í knattspyrnu í kvöld.
Blikar voru sterkari í upphafi leiks og lágu talsvert á Selfyssingum sem stóðust pressuna og áttu góða spretti í kjölfarið. Blikar urðu þó fyrri til að skora en á 21. mínútu fékk Berglind Björg Þorvaldsdóttir boltann í vítateignum og afgreiddi hann glæsilega í netið. Selfyssingum gekk lítið að skapa sér í kjölfar marksins og á 43. mínútu bætti svo Alexandra Jóhannsdóttir við öðru marki fyrir Breiðablik með skoti af stuttu færi.
Staðan var 2-0 í hálfleik en Selfoss komst meira inn í leikinn í seinni hálfleik. Liðunum gekk þó lítið að skapa sér færi en á 69. mínútu minnkaði Magdalena Reimus muninn þegar hún fékk stungusendingu innfyrir og kláraði vel í netið. Mínútu síðar var Magda nálægt því að skora aftur úr svipuðu færi en boltinn fór framhjá.
Selfossliðið var sterkara á lokakaflanum og gerði harða hríð að marki Breiðabliks án þess að ná að skora og niðurstaðan varð 2-1 sigur Íslandsmeistaranna.
Þetta var fyrsti tapleikur Selfoss í deildinni síðan 5. júní. Selfoss er áfram í 4. sæti deildarinnar með 16 stig en Breiðablik er í 2. sæti með 31 stig. Næsti leikur Selfoss er að viku liðinni á heimavelli gegn HK/Víkingi.