Selfyssingar heimsóttu topplið Akureyrar í N1-deild karla í handbolta í kvöld og töpuðu með fimm marka mun, 34-29.
Leikurinn var jafn fyrsta korterið en þá náðu Akureyringar góðum kafla og breyttu stöðunni úr 6-6 í 12-7 á tíu mínútna kafla. Selfyssingar náðu að minnka muninn í 15-13 fyrir leikhlé en Akureyringar áttu erfitt með að stöðva Ragnar Jóhannsson sem skoraði fjögur síðustu mörk Selfyssinga í fyrri hálfleik.
Um miðjan seinni hálfleik var munurinn enn tvö mörk, 24-22, en þá kom góður kafli heimamanna þar sem Selfyssingar voru ekki á tánum í vörninni. Akureyri komst í 29-24 og þá kallaði Sebastian Alexandersson, þjálfari, sína menn á stuttan liðsfund.
Selfyssingar skoruðu tvö mörk í röð eftir leikhléið og breyttu stöðunni í 29-26 þegar rúmar 7 mínútur voru eftir af leiknum. Þrátt fyrir fína baráttu komust Selfyssingar ekki nær því Akureyringar voru ákveðnari í sókninni á lokamínútunum og unnu sanngjarnan sigur.
Ragnar Jóhannsson og Guðjón Drengsson voru markahæstir Selfyssinga með 8 mörk. Árni Steinn Steinþórsson skoraði 4 og þeir Einar Héðinsson og Atli Kristinsson 3. Ómar Helgason, Helgi Héðinsson og Gunnar Ingi Jónsson skoruðu allir eitt mark.