Stokkseyri heimsótti KFS til Vestmannaeyja í 4. deild karla í knattspyrnu í dag. Eyjamenn höfðu 3-0 sigur.
Heimamenn skoruðu mörkin þrjú á 20 mínútna kafla um miðjan leikinn, með tíu mínútna millibili, á 39., 49. og 59. mínútu.
Stokkseyringar áttu ágætar sóknir inn á milli en Eyjamenn voru þó sterkari og hefðu líklega átt að fá fleiri mörk dæmd gild en leikurinn fór fram í svartaþoku og útsýnið hreint ekki gott á milli vallarenda.
Það var skarð fyrir skildi í liði Stokkseyrar að annan leikinn í röð vantaði bæði Atla Rafn Viðarsson og Andra Marteinsson í leikmannahópinn en Atli er erlendis og Andri meiddur – og munar um minna fyrir Stokkseyringa.