Hamar tapaði fyrir KR í fyrsta leik ársins í Iceland Express-deild kvenna í körfubolta. Lokatölur voru 67-75 í Hveragerði.
KR hafði forystuna allan leikinn, komst í 2-7 í fyrsta leikhluta og leiddi að honum loknum 10-21. Hamar minnkaði muninn í 20-27 í upphafi 2. leikhluta en þá tók KR á sprett og leiddi 30-42 í hálfleik.
Það var lítið skorað í 3. leikhluta en KR jók forskotið með ellefu stigum í röð um miðjan leikhlutann og staðan var 40-59 þegar síðasti fjórðungurinn hófst.
Þar náði Hamar að saxa töluvert á forskot KR-inga en munurinn var orðinn of mikill. Hamar skoraði fjórtán stig gegn þremur á síðustu þremur mínútum leiksins en það dugði ekki til.
Samantha Murphy var stigahæst hjá Hamri með 25 stig en besti leikmaður heimamanna var Katherine Graham með 23 stig og 8 stolna bolta. Marín Laufey Davíðsdóttir skoraði 10 stig, Íris Ásgeirsdóttir 5, Kristrún Rut Antonsdóttir og Álfhildur Þorsteinsdóttir skoruðu báðar 2 stig og Álfhildur tók 11 fráköst að auki.
Erica Prosser lék vel fyrir KR og var stigahæst með 22 stig og 7 stolna. Margrét Kara Sturludóttir átti einnig mjög góðan leik með 14 stig og 21 frákast. Sigrún Sjöfn Ámundadóttir skoraði 12 stig gegn sínum gömlu félögum, Bryndís Guðmundsdóttir 10, Hvergerðingurinn Hafrún Hálfdánardóttir 6, Anna María Ævarsdóttir var einnig með 6 stig og Helga Einarsdóttir 5.
Hamar er á botni deildarinnar með fjögur stig þegar fimmtán umferðum er lokið. KR er í 3. sæti með 18 stig, tveimur stigum fyrir ofan Hauka sem töpuðu fyrir Njarðvík í kvöld.