Eftir þrjá taplausa leiki í röð lutu Selfyssingar parket þegar þeir mættu Fram í N1-deild karla í handbolta í kvöld, 35-31.
Selfoss byrjaði betur og komst í 2-4 áður en Framarar tóku við sér. Manni færri komust heimamenn í 8-5 og náðu svo fjögurra marka forskoti, 11-7. Fram náði mest sex marka forskoti en Selfoss skoraði síðasta mark fyrri hálfleiks og staðan var 20-15 í leikhléi.
Selfyssingar byrjuðu seinni hálfleik af krafti og minnkuðu muninn í tvö mörk á fyrsta korterinu, 25-23. Andrius Zigelis var heitur og hafði skorað fimm mörk þegar hann fékk sína þriðju brottvísun og þar af leiðandi rauða spjaldið þegar 15 mínútur voru eftir af leiknum.
Selfyssingar létu það ekki á sig fá og Ragnar Jóhannsson minnkaði muninn í 29-28 þegar níu mínútur voru eftir af leiknum. Allt var á suðupunkti á lokamínútunum og liðin gerðu mistök á báða bóga en Fram komst í 32-30 þegar þrjár mínútur voru eftir. Sá tími gagnaðist Selfyssingum þó ekki því Fram skoraði síðustu þrjú mörk leiksins og sigraði 35-31.
Ragnar Jóhannsson var markahæstur Selfyssinga með 11 mörk en Andrius Zigelis skoraði sex áður en hann fauk útaf. Guðjón Drengsson skoraði 5 mörk, Einar Héðinsson 3, Atli Kristinsson og Guðni Ingvarsson 2 og þeir Milan Ivancev, Ómar Helgason og Helgi Héðinsson skoruðu allir 1 mark.