Olís-deild karla í handbolta hófst í kvöld þegar Selfyssingar heimsóttu Stjörnumenn í Garðabæinn. Heimamenn reyndust sterkari og sigruðu 29-26.
Frá upphafi áttu Selfyssingar í erfiðleikum með að komast framhjá Sveinbirni Péturssyni, markmanni Stjörnunnar, og það var það sem skildi liðin að í kvöld. Sveinbjörn varði 18/1 skot í leiknum á meðan markmenn Selfoss vörðu samtals 7 skot.
Stjarnan skoraði þrjú fyrstu mörk leiksins en Selfoss náði að minnka muninn´i 6-5. Þá komu fimm mörk í röð frá Stjörnunni og munurinn var orðinn sex mörk í leikhléi, 17-11.
Selfoss byrjaði seinni hálfleikinn betur og náði að minnka muninn í 18-16. Þá tóku Stjörnumenn við sér aftur og höfðu góð tök á leiknum til leiksloka. Lokatölur 29-26.
Hergeir Grímsson var atkvæðamestur Selfyssinga með 8 mörk. Elvar Örn Jónsson skoraði 7, Atli Ævar Ingólfsson 5, Teitur Örn Einarsson 4/1 og þeir Einar Sverrisson og Haukur Þrastarson skoruðu sitt markið hvor.
Sölvi Ólafsson varði 4 skot í marki Selfoss og Helgi Hlynsson 3.