Selfoss tapaði 1-0 þegar liðið mætti Stjörnunni í 1. umferð Pepsi Max deildar kvenna í knattspyrnu í Garðabænum í kvöld.
Leikurinn var jafn framan af en Stjörnukonur nýttu fyrsta færi leiksins á 24. mínútu þegar Birna Jóhannsdóttir skoraði af stuttu færi eftir fyrirgjöf frá Sóleyju Guðmundsdóttur. Stjarnan stjórnaði leiknum í kjölfarið og Selfyssingum tókst ekki að skapa sér teljandi færi í fyrri hálfleik.
Þær vínrauðu komu hins vegar mun sprækari inn í seinni hálfleikinn og leituðu án afláts að jöfnunarmarkinu. Magdalena Reimus komst næst því að skora en hún átti hörkuskot á 58. mínútu sem Birta Guðlaugsdóttir í marki Stjörnunnar varði vel.
Selfoss hélt áfram að stýra leiknum en dampurinn datt nokkuð úr leik beggja liða um miðjan seinni hálfleikinn. Á lokakaflanum sóttu Stjörnukonur aftur í sig veðrið en bæði lið áttu ágætar sóknir þó að mörkin yrðu ekki fleiri.