Selfyssingar tóku á móti HK í N1 deild karla í handbolta í kvöld og töpuðu, 34-39, í skrautlegum leik.
Selfyssingar voru arfaslakir í fyrri hálfleik og HK náði mest átta marka forskoti, 9-17, en staðan var 12-18 í leikhléi.
Leikurinn breyttist til muna í seinni hálfleik ekki síst þegar dómaraparið tók öll völd á vellinum þar sem hver skrautlega ákvörðunin rak aðra. Selfyssingar áttu erfitt með að halda haus við þessar kringumstæður en þeir tóku sig þó miðað við frammistöðuna í fyrri hálfleik. Munurinn minnkaði niður í þrjú mörk, 23-26, en nær komust Selfyssingar ekki.
HK menn voru seigir og þeir skriðu framúr aftur leiddir áfram af Ólafi Ragnarssyni en Flóamaðurinn Hörður Másson lét líka mikið að sér kveða í seinni hálfleik og skoraði þá sex mörk fyrir HK.
Ragnar Jóhannsson skoraði 11/2 mörk fyrir Selfoss og þeir Matthías Halldórsson og Hörður Bjarnarson voru báðir með 5 mörk. Guðjón Drengsson skoraði 4/1, Atli Kristinsson 3, Guðni Ingvarsson og Gunnar Ingi Jónsson 2 og Helgi og Einar Héðinssynir gerðu sitt markið hvor. Birkir Fannar Bragason varði 11/1 skot í marki Selfoss.
Selfyssingarnir í liði HK Bjarki Már Elísson og Hörður Másson skoruðu 7 og 6 mörk.