Tapleikir hjá Hamri og FSu

Hamar tapaði fyrir Val í 1. deild karla í körfubolta í gærkvöldi en sólarhring áður hafði FSu tapað fyrir Breiðabliki, einnig á útivelli.

Leikur Vals og Hamars var jafn í fyrri hálfleik. Valur hafði frumkvæðið í 1. leikhluta en Hamar minnkaði muninn í 2. leikhluta og staðan var 44-39 í hálfleik. Valsmenn voru sterkari í síðari hálfleik og lokatölur urðu 101-86.

Christopher Woods var bestur hjá Hamri með 34 stig og 18 fráköst. Örn Sigurðarson skoraði 24 stig, Snorri Þorvaldsson 11 og Oddur Ólafsson 10.

Í fyrrakvöld tapaði FSu sínum öðrum leik í deildinni í vetur þegar liðið heimsótti Breiðablik. Blikar náðu öruggri forystu í 1. leikhluta og leiddu 62-44 í hálfleik. Varnarleikur FSu batnaði í seinni hálfleik en áhlaup liðsins í 4. leikhluta kom of seint og lokatölur urðu 100-90.

Terrence Motley skoraði 30 stig fyrir FSu og tók 13 fráköst. Ari Gylfason skoraði 14 og þeir Helgi Jónsson, Sveinn Gunnarsson og Orri Jónsson skoruðu allir 8 stig.

FSu er með 8 stig í 3. sæti deildarinnar en Hamar í 6. sæti með 6 stig.

Fyrri greinStigasöfnun Mílunnar gengur illa
Næsta greinGrétar mættur aftur á parketið