Taugatrekkjandi sigur í fyrsta leik

Hamar hefur tekið 1-0 forystu í einvíginu gegn Stjörnunni um laust sæti í Domino's-deild kvenna í körfubolta. Hamar sigraði 75-60 í Hveragerði í gærkvöldi.

Fyrir leikinn í gær höfðu Hamarskonur unnið báða deildarleikina gegn Stjörnunni nokkuð örugglega. Það fór því um áhorfendur í fyrri hálfleik, sem bjuggust við öruggum sigri, því leikurinn var jafn og Stjörnukonur gáfu Hamri ekkert eftir. Gæði leiksins voru hins vegar ekki mikil og útlit fyrir að bæði lið væru að bíða með að hrökkva almennilega í gang. Staðan í hálfleik var 30-28.

Það sama var uppi á teningnum í 3. leikhluta og nú voru heitustu stuðningsmenn Hamars komnir alveg fram á sætisbrúnina í spenningi. Undir lok leikhlutans náði Hamar þó 11-3 áhlaupi og leiddi 54-49.

Nú héldu margir að björninn væri unninn en þá tók Stjarnan 3-8 kafla á fyrstu fjórum mínútum 4. leikhluta og jafnaði 57-57. Það áhlaup var þó svanasöngur Stjörnukvenna því þær skoruðu aðeins þrjú stig á síðustu sex mínútum leiksins á meðan Hamarskonur röðuðu niður átján stigum og unnu því að lokum með fimmtán stiga mun, 75-60.

Stigamunurinn skiptir þó engu máli því það var fyrir mestu að ná sigri og með því að leggja Stjörnuna að velli í leik númer tvö í Garðabæ á morgun, laugardag, hafa Hamarskonur endurheimt sæti sitt í efstu deild. Leikurinn hefst kl.16:30.

Marín Laufey Davíðsdóttir var best í liði Hamars með 19 stig og 10 fráköst. Íris Ásgeirsdóttir skoraði 17 stig, Bjarney Sif Ægisdóttir 11, Katrín Eik Össurardóttir 7, Álfhildur Þorsteinsdóttir 5 auk þess sem hún tók 12 fráköst og Regína Ösp Guðmundsdóttir skoraði 1 stig.

Fyrri greinKristinn ráðinn umhverfisfulltrúi
Næsta greinOrð gegn orði í hnífamáli