Teitur með tíu mörk í bikarsigri

Selfyssingar eru komnir í 16-liða úrslit bikarkeppni karla í handbolta eftir útisigur á Val-2 í Vallaskóla í dag.

Leikurinn var heimaleikur Vals en hann fór fram á Selfossi í samræmi við óskir Valsara. Þetta er annar útileikurinn sem Selfyssingar spila í Vallaskóla um helgina, en liðið sótti Míluna heim í 1. deildinni á föstudagskvöldið.

Leikurinn í dag var hægur og ekki mikið fyrir augað lengst af. Selfyssingar höfðu forystuna allan tímann, leiddu 11-14 í hálfleik og lokatölur urðu 27-30.

Teitur Örn Einarsson var markahæstur Selfyssinga með 10 mörk. Elvar Örn Jónsson skoraði 5, Guðjón Ágústsson, Andri Már Sveinsson og Alexander Már Egan skoruðu allir 3 mörk. Árni Guðmundsson og Magnús Öder Einarsson voru báðir með 2 og þeir Árni Geir Hilmarsson og Egidijus Mikalonis skoruðu báðir 1 mark.

Fyrri greinFengu mynd af prestshjónum
Næsta greinStöðvuð á stolnum bíl með stolnar númeraplötur