Handknattleiksmaðurinn Teitur Örn Einarsson frá Selfossi hefur gert tveggja ára samning við þýska stórliðið Gummersbach og mun ganga til liðs við félagið í sumar.
Teitur fer til Gummersbach eftir tveggja ára dvöl í herbúðum Flensburg í Þýskalandi en þar áður lék hann með IFK Kristianstad í Svíþjóð.
„Fyrst og fremst þá ákvað ég að velja Gummersbach vegna þess að liðið leikur hraðan handbolta sem hentar mjög vel mínum leikstíl. Mér finnst þetta bara líta hrikalega vel út,“ sagði Teitur Örn í samtali við handbolti.is.
„Einnig hafði það mikið að segja að Guðjón Valur [Sigurðsson] þjálfar liðið og það sem hann hafði fram að færa við mig hljómaði fullkomið fyrir mig á þessum tímapunkti á ferlinum,“ sagði Teitur ennfremur í viðtalinu á handbolti.is, sem má lesa hér.