Selfoss vann HK 31-35 í 1. deild karla í handbolta í kvöld þegar liðin mættust í Digranesi í Kópavogi.
Selfyssingar þurftu að hafa fyrir hlutunum í kvöld því HK liðið hafði frumkvæðið í fyrri hálfleik og náði mest fjögurra marka forskoti. Selfoss saxaði á forystu heimamanna undir lok fyrri hálfleiks og staðan var 17-16 í hálfleik.
Seinni hálfleikur var jafn lengst af en undir lokin voru þeir vínrauðu sterkari og unnu á endanum sanngjarnan fjögurra marka sigur, 31-35.
Teitur Örn Einarsson var allt í öllu í sóknarleiknum hjá Selfyssingum og skoraði 15 mörk.
Selfyssingar eru í 3. sæti deildarinnar með 18 stig, eins og Fjölnir sem situr í 2. sætinu. HK er í 6. sæti með 10 stig.