Teitur Örn Einarsson, stórskytta handboltaliðs Selfoss, hefur samið við sænsku meistarana í Kristianstad og mun hann ganga til liðs við liðið í júlí næstkomandi.
Kristianstad greinir frá þessu á heimasíðu sinni, en samningurinn er til ársins 2020. Samkvæmt Svíunum höfðu lið í Danmörku og Þýskalandi augastað á Teiti en hann hafi valið Kristianstad en félagið er þekkt fyrir að þróa leikmenn sem hafa síðan gengið til liðs við stærstu lið Evrópu.
Þrír aðrir Íslendingar eru liði Kristianstad, þeir Gunnar Steinn Jónsson, Arnar Freyr Arnarsson og Ólafur Guðmundsson.
Teitur er algjör lykilmaður í liði Selfoss í Olís-deildinni og er markahæsti leikmaður deildarinnar með 107 mörk í 14 leikjum. Svíarnir eru að sjálfsögðu glaðir með þennan happafeng.
„Við erum mjög ánægð með að Teitur valdi að koma til okkar þrátt fyrir fyrirspurnir frá liðum í þýsku Bundesligunni. Hann er einstaklega hæfileikaríkur og marksækinn og við sjáum hann svo sannarlega fyrir okkur sem framtíðar leikmann. Hann er skotfastur og kraftmikill og hentar okkur leikskipulagi fullkomlega,“ segir Jesper Larsson, íþróttastjóri Kristianstad.
Í umfjöllun Kristianstad um Teit segir ennfremur að hann hafi verið efnilegur spjótkastari og eigi Íslandsmetið í 13 ára flokki – sem er laukrétt hjá þeim; 42,85 m sett í Þorlákshöfn í ágúst 2011.