Mikil og góð aðsókn hefur verið að golfvelli Dalbúa í Miðdal við Laugarvatn í sumar.
Að sögn Ransýar Bender þá fór aðsóknin seinna af stað en venjulega en hefur verið góð síðan. ,,Það hefur verið mjög góð aðsókn í sumar og það er mjög gaman að því að nú sækir Þingvallafólkið hingað í auknum mæli,” sagði Ransý.
Hún segir að í kjölfar opnunar nýja vegarins yfir Lyngdalsheiði væri að skapast góð tækifæri fyrir hringakstur.
Árið 2008 var gerður samningur við hjónin Guðmund H. Sigmundsson og Ransý um rekstur golfvallar klúbbsins og skála. Sjá þau um allan daglegan rekstur vallarins og skálans.
Unnið er að því markvisst að gera golfvöllinn í Miðdal að skógarvelli og fyrr í sumar fékk völlurinn 300 trjáplöntur að gjöf sem breyta verulega ásýnd vallarins en trén eru eins til tveggja metra há. Undanfarið hafa brautir verið lengdar og teigar byggðir upp.
Að sögn Guðmundar eru miklar breytingar að verða á brautum 3 og 4 en sú fyrrnefnda fer úr að vera par 4 í par 5. ,,Það fer mikil vinna í að byggja upp völlinn enda segja Skotarnir að það taki eitt til tvö hundruð ár að búa til golfvöll,” sagði Guðmundur.