Efnilegasti knattspyrnumaður Selfoss, Jón Daði Böðvarsson, segist tilbúinn að takast á við nýjar áskoranir og er spenntur fyrir dvölinni sem framundan er í Danmörku.
„Mér líst ótrúlega vel á að fara til AGF og í leiðinni er ég mjög ánægður með að framlengja við Selfoss og fá að hjálpa þeim að tryggja sér sæti í efstu deild á ný,“ sagði Jón Daði í samtali við sunnlenska.is í kvöld.
Jón Daði þekkir aðeins til hjá AGF í Árósum en þar var hann á reynslu fyrr í vetur. „Mér leist mjög vel á aðstæður, þeir eru með fimm velli og gervigras, reyndar ekkert ósvipað og á Selfossi, en auðvitað er allt miklu stærra þar. Samt ná þeir að hafa klúbbinn fjölskylduvænan og ekki skemmir fyrir að hjá AGF eru fyrir tveir ungir Íslendingar, þeir Aron Jóhanns og Arnar Aðalgeirs. Eins leist mér mjög vel á þjálfarateymið hjá þeim, allir tilbúnir að gera allt fyrir mann og mikill kennsla í gangi,“ segir Jón Daði.
Jón Daði heldur á morgun [sunnudag] til Danmörku og mætir að öllum líkindum á fyrstu æfingu hjá þeim á mánudag. En kom þetta óvænt upp að þeir báðu um að fá þig lánaðan? „Nei, þetta er búið að hafa smá aðdraganda. AGF sýndu mér strax mikinn áhuga þegar ég var hjá þeim og höfðu fljótlega samband við Selfoss. Ég er búinn að skoða þetta mjög vel með hagsmuni mína og Selfossliðsins, sem mér finnst líka mjög mikilvægt, því það hefur verið frábært að alast upp í þessum klúbb“.
En verða ekki mikil viðbrigði að fara frá Selfossi og æfa með alvöru atvinnumannaliði? „Ég er auðvitað búinn að æfa 10 sinnum í viku hjá Selfoss og akademíu Íslands á Selfossi og ætti því að vera tilbúinn að æfa tvisvar á dag úti. Þannig séð ætti stökkið að ekki að vera eins mikið, en auðvitað er tempó á æfingum mun meira og ég tel mig tilbúinn í næsta skref,“ sagði Jón Daði að lokum en hann var í óða önn að pakka ofaní ferðatöskur þegar sunnlenska.is náði sambandi við hann í kvöld.
Jón Daði lánaður til AGF