Selfoss vann nokkuð þægilegan sigur á Hrunamönnum í 1. deild karla í körfubolta í kvöld á meðan Hamar tapaði naumlega gegn Álftanesi.
Selfoss og Hrunamenn mættust í Gjánni á Selfossi og þar gerðu heimamenn út um leikinn í fyrri hálfleik. Allar varnir lágu niðri hjá Hrunamönnum og Selfoss leiddi 63-39 í hálfleik. Leikurinn var jafnari í seinni hálfleik og Hrunamenn náðu að saxa lítillega á forskotið en lokatölur urðu 103-88.
Srdan Stojanovic var öflugur hjá Selfyssingum, skoraði 30 stig, sendi 9 stoðsendingar og tók 6 fráköst. Gerald Robinson skoraði 28 stig og tók 10 fráköst og Kennedy Aigbogun skoraði 18 stig. Hjá Hrunamönnum var Ahmad Gilbert stigahæstur með 29 stig og 9 fráköst og Samuel Burt var sömuleiðis öflugur með 25 stig. Friðrik Vignisson skoraði 12 og Eyþór Orri Árnason 11.
Hnífjafnt í Hveragerði
Það var mun meiri spenna í Hveragerði, þar sem Álftanes var í heimsókn hjá Hamri. Liðunum er báðum spáð góðu gengi í vetur og þau buðu svo sannarlega upp á skemmtun í Frystikistunni í kvöld. Leikurinn var hnífjafn allan tímann, Hamar leiddi 51-47 í hálfleik og seinni hálfleikurinn var æsispennandi. Hamar náði átta stiga forskoti í upphafi 4. leikhluta en Álftnesingar voru fljótir að svara fyrir sig og komust yfir 79-81 þegar þrjár og hálf mínúta var eftir. Gestirnir voru klókari á lokakaflanum og náðu fimm stiga forskoti á lokamínútunni. Hamar náði ekki að brúa bilið og lokatölur urðu 92-95.
Mirza Sarajlija var bestur í liði Hamars í kvöld, skoraði 29 stig og sendi 7 stoðsendingar. Jose Medina skoraði 23 stig og sendi 10 stoðsendingar, Alfonso Birgir Gómez skoraði 15 stig og tók 7 fráköst og Ragnar Nathanaelsson skoraði 11 stig og tók 14 fráköst.