Selfyssingurinn Jón Daði Böðvarsson spilaði frábærlega þegar íslenska landsliðið í knattspyrnu lagði Tyrki að velli á Laugardalsvellinum í kvöld, 2-1.
Jón Daði var í byrjunarliðinu og spilaði 63 mínútur í leiknum en hann hefur lítið spilað með félagsliði sínu á þessu ári eftir að hafa glímt við meiðsli í vetur.
„Þetta var æðislegt. Það er auðvitað ógeðslega langt síðan ég fékk að spila síðast. Ég spilaði síðast deildarleik í febrúar. Maður saknar þess að snerta fótbolta og vera aftur á grasinu, þá sérstaklega á Laugardalsvellinum,“ sagði Jón Daði Böðvarsson, í samtali við fjölmiðla eftir leik.
Þrátt fyrir að hafa lítið spilað segist Jón vera í góðu formi en hann æfði meðal annars á Selfossi í aðdraganda landsliðsverkefnanna síðustu dag.
„Ég fór beint eftir tímabilið á Selfoss og hef verið að æfa þar með Gunnari Borgþórssyni, maður verður að gefa honum shout-out meðan maður er að tala við ykkur. Ég þakka honum fyrir að koma mér í stand og síðan hef ég verið að æfa vel með landsliðinu, síðan var maður klár í þetta,“ sagði Jón Daði.
Það gekk mikið á í aðdraganda landsleiksins gegn Tyrkjum. Hótunum rigndi yfir Íslendinga á samfélagsmiðlum og hakkarar gerðu árásir á íslenskar vefsíður, meðal annars sunnlenska.is. Landsliðsmönnunum bárust líka ýmsar ljótar hótanir.
„Já, ég fékk helling af þessum hótunum. Ég nennti ekki að skoða þetta,“ sagði Jón Daði ennfremur.