Thelma Sif Kristjánsdóttir skoraði sigurmark Selfoss á 89. mínútu í nýliðaslag Selfoss og FH í Pepsi-deild kvenna í knattspyrnu í kvöld. Lokatölur voru 2-1.
Leikurinn var tíðindalítill fyrsta korterið en eftir það höfðu FH-ingar frumkvæðið og voru mun líklegri til að skora. Þeir fengu hins vegar blauta tusku í andlitið á 38. mínútu þegar Guðmunda Óladóttir fékk slapp innfyrir vörn FH og kom Selfyssingum yfir með góðu marki. Staðan var 1-0 í hálfleik.
Yfirburðir FH voru miklir fyrsta hálftímann í seinni hálfleik og sóknirnar dundu á Selfossvörninni. Gestirnir jöfnuðu á 55. mínútu og hefðu getað bætt við fleiri mörkum en voru mislagðir fætur inni í vítateig Selfoss.
Þegar fimmtán mínútur voru eftir var FH blaðran hins vegar sprungin og Selfyssingar sóttu í sig veðrið. Þær vínrauðu fengu hvert færið á fætur öðru á lokakaflanum þangað til á 89. mínútu að Thelma Sif stangaði inn hornspyrnu af fjærstöng úr mjög þröngu færi.
Þetta var síðasta færi leiksins og Selfoss vann þar með sinn fyrsta sigur í efstu deild frá upphafi. Liðið er nú í fjórða sæti deildarinnar með fjögur stig.