Árborg heldur toppsæti sínu í A-riðli 3. deildar karla eftir öruggan 0-6 sigur á Hvíta riddaranum í kvöld.
Árborg hafði góð tök á leiknum í fyrri hálfleik en Ólafur Tryggvi Pálsson kom Árborg yfir með skalla eftir hornspyrnu á 13. mínútu leiksins. Árborg hefði getað bætt við þremur mörkum skömmu síðar en markvörður Hvíta riddarans fór á kostum í rammanum. Hann sá þó ekki við Guðmundi Ármanni Böðvarssyni sem kom Árborg í 0-2 á 45. mínútu og þannig stóðu leikar í hálfleik.
Árborgarar hresstust nokkuð í síðari hálfleik og sóttu nær látlaust að marki Hvíta riddarans. Guðmundur Garðar Sigfússon skoraði á 54. mínútu og skömmu síðar skoraði Jón Auðunn Sigurbergsson glæsilegt skallamark eftir hornspyrnu. Staðan var 0-4 allt fram á 89. mínútu en þá skoraði varamaðurinn Theodór Guðmundsson tvö mörk á þremur mínútum og gerði endanlega út um leikinn.
Árborg hefur nú 22 stig í efsta sæti A-riðils og hefur fimm stiga forskot á KFG í öðru sæti.