Golfklúbbur Selfoss tók í dag formlega í notkun nýtt áhaldahús og æfingaaðstöðu á Svarfhólsvelli. Um er að ræða glæsilega inniaðstöðu fyrir kylfinga en klúbburinn hefur hingað til leigt æfingaaðstöðu á Selfossi. Þá hefur tækjakostur félagsins hingað til ekki haft húsaskjól en á vellinum var lítið áhaldahús sem byggt var til bráðabirgða árið 1990.
„Þetta hús breytir öllu fyrir okkur, nú erum við með okkar eigið húsnæði en við höfum þurft að leigja aðstöðu hingað til og það kostar lítinn golfklúbb eins og okkar mjög mikið,“ sagði Páll Sveinsson, formaður Golfklúbbs Selfoss, í samtali við sunnlenska.is.
Golfið gert að heilsársíþrótt
„Sennilega er þetta byltingarkenndast hvað varðar æfingaaðstöðu barna- og unglingastarfs og annarra félagsmanna. Núna höfum við inniaðstöðu allt árið. Það vill henda að það komi rigningarsumur, þó það gerist sjaldan á Selfossi. Á sumrin erum við með 30-50 krakka á æfingum hérna daglega og þegar hefur rignt hingað til þá höfum við reynt að koma öllum í skjól og gera það besta úr stöðunni, en ekkert verið að vinna áfram í golfi. Nú getum við farið hingað inn, yfir sumartímann líka og byrjað að æfa eins og aðrir klúbbar í nóvember og þannig gert golfið að heilsársíþrótt. Það er stærsti munurinn,“ segir Páll.
Hlynur Geir helsti drifkrafturinn
Í nýja húsinu er skrifstofuaðstaða, geymsla fyrir golfsett, salerni, stór tækjageymsla og ennþá stærri æfingasalur þar sem meðal annars er hægt að komast í fullkominn golfhermi.
„Í æfingasalnum er púttflöt, tæknisvæði þar sem þú slærð í net og svo golfhermirinn okkar sem er besta tæki sem völ er á á heimsvísu. Þar er hægt að greina golfhöggið niður í smáatriði og þar er Hlynur Geir, PGA þjálfarinn okkar, bæði með krakka, fullorðna og nýliða í fullkomnustu æfingaaðstöðu sem hægt er að komast í. Við erum gríðarlega stolt af þessari aðstöðu og það er óhætt að segja að Hlynur Geir, að öðrum ólöstuðum, eigi mikið í þessu húsi enda hefur hann verið helsti drifkrafturinn í byggingu þess,“ bætir Páll við.
„Það er líka vert að minnast á það að nú erum við komin með tækjageymslu og vinnuaðstöðu fyrir tækin okkar allt árið um kring, sem þýðir sparnað í viðhaldi og umsýslu tækjanna. Okkur hefur sannarlega vantað stóra vinnuaðstöðu. Strákarnir hafa verið að reyna að halda vélunum í skjóli yfir veturinn, ekkert náð að vinna í þeim. Nú erum við með nokkur hundruð fermetra þar sem við getum tekið allt í sundur og smurt og brýnt og lagað. Þetta er byltingarkennd aðstaða.“
Ætlum að vera leiðandi á Suðurlandi
Iðkendafjöldi hjá Golfklúbbi Selfoss hefur aukist ár frá ári og Páll segir að nýja byggingin muni væntanlega eiga stóran þátt í því að efla starfið til framtíðar.
„Við vitum það að við verðum í fararbroddi hér á Suðurlandi innan nokkurra ára. Við erum með stærsta byggðarkjarnann en samt bara með níu holu golfvöll sem stefnir upp í átján holur. Það er ákall í dag um að stór byggðarfélög eins og Árborg hafi þessa þjónustu, átján holu völl og góða æfingaaðstöðu og félagsaðstöðu. Þetta er hluti af lýðheilsustefnu samfélaga að geta boðið upp á svona aðstöðu. Við ætlum að vera leiðandi hér á Suðurlandi, í þessari golfparadís sem Suðurland er með fjölda stórkostlegra golfvalla. Þetta er gríðarlega stórt stökk fram á við fyrir alla íbúa svæðisins og ekki síst félaga Golfklúbbs Selfoss,“ sagði Páll að lokum.
Það var fjölmenni við opnunarathöfnunina í dag þar sem félagsmenn og gestir kynntu sér aðstöðuna, prófuðu hermirinn og síðan var haldið púttmót í tilefni dagsins.