„Mér gæti ekki liðið betur. Þetta er hálf súrrealískt. Þetta er stór stund fyrir bæjarfélagið og klúbbinn og leikmenn sem eru búnir að alast hérna upp í gegnum tíðina. Og allt fólkið sem er búið að vera í tuttugu ár í stjórn,“ sagði Lárus Jónsson, þjálfari Þórs Þ sem tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn í körfuknattleik karla í kvöld.
Þór vann 81-66 og lék frábæra vörn mest allan leikinn.
„Eftir fyrsta leikhluta þá spiluðum við rosalega vörn. Besta vörn sem við höfum spilað á tímabilinu. Styrmir slökkti í Burks og það var algjör lykill. Eini sem skoraði hjá þeim var Milka, hann er frábær leikmaður,“ bætti Lárus við.
Þór vann einvígið 3-1 og Lárus segir að liðið hafi ekki viljað fara í oddaleik í Keflavík.
„Við vorum búnir að ákveða það að við ætluðum að klára þetta í dag. Ég hefði eiginlega ekki boðið í það að þurfa að fara í oddaleik í Keflavík. Auðvitað hefðum við gírað okkur í það. Það hefði verið rosalega erfitt fyrir okkur að vinna í Keflavík en að sama skapi hefði það verið erfitt fyrir Keflavík að vinna okkur þrisvar í röð,“ sagði Lárus glaður að lokum.
„Þetta er alveg ótrúleg stund hérna í kvöld og ég get ekki sagt annað en að ég sé hamingjusamur.“