Selfoss heldur toppsætinu í Pepsi Max deild kvenna í knattspyrnu þrátt fyrir að hafa tapað sínum fyrstu stigum í kvöld. Selfoss fékk Fylki í heimsókn og niðurstaðan varð 0:0 jafntefli þar sem Selfyssingar voru manni færri í rúmlega 50 mínútur.
Ekkert diss á þær
„Ég er svekktur yfir því að hafa misst mann útaf, en það er bara eins og það er. En heilt yfir, einum færri í 55 mínútur, náum við að stjórna leiknum mjög vel. Stelpurnar lögðu sig 100% fram og varamennirnir sem komu inná stóðu sig frábærlega. Ég þurfti að gera breytingar og það er ekkert diss á þær sem þurftu að fara útaf. Þetta gekk alltsaman upp og ég hefði viljað taka þetta í lokin eftir að Hólmfríður [Magnúsdóttir] kom inná,“ sagði Alfreð Elías Jóhannsson, þjálfari Selfoss, í samtali við sunnlenska.is.
„Fylkir hafði kannski ekki alveg sjálfstraustið til að spila í gegn, þær voru að reyna langa bolta upp á von og óvon og það skapar engin vandræði fyrir okkur. Ég hafði það á tilfinningunni að við myndum taka þetta í lokin. Eitt stig… ég er aldrei sáttur við að taka ekki þrjú stig á heimavelli en miðað við aðstæður þá tökum við þessu stigi fagnandi,“ sagði Alfreð ennfremur.
Rauða spjaldið vendipunktur
Það var virkilega fátt um færi í leiknum þó að bæði lið hafi átt álitlegar sóknir. Endahnútinn vantaði upp við bæði mörkin.
Vendipunktur varð í leiknum á 38. mínútu þegar Guðný Geirsdóttir, markvörður Selfoss, fékk rauða spjaldið þegar hún braut á leikmanni Fylkis fyrir utan vítateiginn. Benedicte Håland kom í markið í hennar stað og átti rólegt kvöld en virkaði örugg.
Síðustu tíu mínútur leiksins virkuðu Selfyssingar líklegri, þar sem mjög var dregið af Fylkisliðinu. Þeim vínrauðu tókst þó ekki að skapa opið færi en takturinn í leiknum breyttist þegar Hólmfríður Magnúsdóttir kom inn af varamannabekknum undir lokin.