Lokaumferð Lengjudeildar karla fer fram í dag en kl. 14:00 taka Selfyssingar á móti Vestra á JÁVERK-vellinum. Selfyssingar eru í fallsæti fyrir lokaumferðina en baráttan er hörð milli þriggja annarra liða og allt getur gerst.
Dean Martin, þjálfari Selfoss, segir að sínir menn séu til í slaginn eftir mjög góða æfingaviku.
„Menn eru á tánum og búnir að gefa 100% í æfingarnar eins og venjulega. Við erum klárir og okkur hlakkar til leiksins,“ segir Dean og bætir við að spennustigið sé ekki meira en venjulega.
„Við væntumst alltaf til mikils af okkar leikmönnum á æfingum og að þeir æfi eins og þeir spila. Þannig viljum við alltaf hafa það, sama hvort það sé fyrsti eða síðasti leikur í móti.“
Allir þurfa að róa í sömu átt
Vestramenn eru í fjórða sæti deildarinnar og munu ljúka leik í sama sæti hvernig sem fer í dag. Dean segir að Selfyssingar þurfi að einbeita sér að sjálfum sér.
„Vestri er vel spilandi lið og til þess að vinna þá þurfum við að spila okkar leik, vera þéttir, standa saman og gera það sem við erum góðir í að gera sem lið. Þetta snýst bara um okkur. Við þurfum að vera jákvæðir með það hugarfar að við ætlum að vinna leikinn. Það þurfa allir að leggja allt sitt í leikinn og liðið þarf að róa í sömu átt.“
Þetta er bara Ísland
Það verður mikið um að vera á Selfossvelli í kringum leikinn í dag og það er ósk Selfyssinga að fólk mæti á völlinn og styðji við bakið á liðinu.
„Veðurspáin er því miður ekkert sérstök en við höfum spilað nokkrum sinnum við mjög krefjandi aðstæður í sumar. Þetta er bara Ísland og við þurfum að búast við því óvænta. Þetta er týpískur íslenskur haustdagur og fólk þarf bara að klæða sig vel og mæta og njóta þess að horfa á strákana gefa allt sitt í leikinn og spila fyrir vínrauða hjartað sem slær innra með þeim. Við þurfum fólk sem getur komið og öskrað okkur yfir línuna, sjáumst á vellinum,“ sagði Dean að lokum.