Selfoss vann frábæran sigur á ÍBV í Pepsi Max deild kvenna í knattspyrnu á Selfossvelli í kvöld, 6:2.
„Við spiluðum mjög vel í fyrri hálfleik og þar lögðum við grunninn að þessum góða sigri. Það komu þarna kaflar í seinni hálfleik sem við vorum ósáttar við en við svöruðum vel fyrir okkur og kláruðum leikinn vel. Þetta var sigur liðsheildarinnar,“ sagði Magdalena Reimus, einn markaskorara Selfoss, í samtali við sunnlenska.is eftir leik.
Selfyssingar voru einráðir á vellinum í fyrri hálfleik og skoruðu þrjú góð mörk. Kristrún Rut Antonsdóttir braut ísinn á 8. mínútu, Brenna Lovera bætti við marki á 20. mínútu og Þóra Jónsdóttir skoraði þriðja markið á 41. mínútu. 3-0 í hálfleik.
Eyjakonur breyttu leikskipulaginu í leikhléi og ógnuðu verulega í upphafi seinni hálfleiks. Selfyssingar voru þó fyrri til að skora. Caity Heap skoraði fjórða mark Selfoss en ÍBV minnkaði muninn í 4-2 á fjögurra mínútna kafla í kjölfarið. Selfyssingar fjölguðu þá í varnarlínunni og kláruðu leikinn af miklum krafti og Magdalena skoraði tvö mörk á síðustu tíu mínútunum.
Selfoss hefur nú 25 stig í 4. sæti deildarinnar og er áfram í hörkubaráttu við Þrótt og Stjörnuna um 3. sætið. ÍBV er hins vegar í 7. sæti með 16 stig og bilið er stutt í fallsæti.