Þór Þorlákshöfn situr á toppi úrvalsdeildar karla í körfubolta eftir öruggan sigur á botnliði ÍR í Breiðholtinu í kvöld, 73-84.
Þórsarar voru ekki sannfærandi í fyrri hálfleiknum. ÍR réði ferðinni og staðan í hálfleik var 41-33.
Það var allt annað að sjá til Þórsliðsins í seinni hálfleiknum. Þeir jöfnuðu 48-48 um miðjan 3. leikhluta og litu ekki í baksýnisspegilinn eftir það. Í upphafi 4. leikhluta var staðan orðin 58-72 og Þór sigraði að lokum með 11 stiga mun.
Marreon Jackson var stigahæstur Þórsara með 24 stig en Jordan Semple var framlagshæstur eins og oft áður með 20 stig og 12 fráköst.
Þórsarar eru í toppsæti deildarinnar með 6 stig, eins og Grindavík og Stjarnan sem bæði eiga leik til góða. ÍR er á botninum án stiga.
Tölfræði Þórs: Marreon Jackson 24/9 fráköst/6 stoðsendingar, Jordan Semple 20/12 fráköst/4 varin skot, Ólafur Björn Gunnlaugsson 11/5 fráköst, Justas Tamulis 10, Morten Bulow 8/7 fráköst, Marcus Brown 8, Davíð Arnar Ágústsson 3, Emil Karel Einarsson 1 stoðsending, Ragnar Örn Bragason 1 frákast.