Þór byrjar á heimasigri

Jordan Semple treður með tilþrifum í kvöld. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Keppni í úrvalsdeild karla í körfubolta hófst í kvöld og Þór fékk Njarðvík í heimsókn í Vatnshöllina í Þorlákshöfn. Heimamenn unnu „öruggan“ þriggja stiga sigur, 93-90.

Þór og Njarðvík er spáð svipuðu gengi í vetur, Þórsarar voru í 7. sæti í spá félaganna og Njarðvík í því áttunda. Það var því von á hörkuleik í kvöld – og sú varð raunin.

Þórsarar höfðu undirtökin strax í 1. leikhluta og leiddu að honum loknum, 32-20. Njarðvíkingar vöknuðu í 2. leikhluta og jöfnuðu 44-44 en Þór var yfir í hálfleik, 49-46.

Þriðji leikhluti var í járnum en Þórsarar luku honum á 14-2 áhlaupi og staðan var 72-65 þegar fjórði leikhluti hófst. Þórsarar leiddu með tíu stigum eða meira allan 4. leikhluta en á lokamínútunum minnkuðu Njarðvíkingar bilið hratt. Þeir luku leiknum með 9-1 áhlaupi á tæpum tveimur mínútum en sigri Þórsara var ekki ógnað og sigur í (Þorláks)höfn í fyrsta leik.

Jordan Semple var stigahæstur hjá Þórsurum með 23 stig og 12 fráköst og Justas Tamulis skilaði sömuleiðis góðu framlagi með 22 stig.

Tölfræði Þórs: Jordan Semple 23/12 fráköst, Justas Tamulis 22, Marreon Jackson 19/6 fráköst/5 stoðsendingar, Morten Bulow 15, Marcus Brown 11/5 fráköst, Ragnar Örn Bragason 3, Emil Karel Einarsson 2 fráköst, Ólafur Björn Gunnlaugsson 1 frákast/1 stoðsending, Davíð Arnar Ágústsson 2 fráköst/1 stoðsending.

Fyrri greinFéll af þaki í Rangárþingi
Næsta greinSóknarleikurinn í fyrirrúmi í opnunarleik vetrarins