Íslandsmeistarar Þórs frá Þorlákshöfn náðu sér ekki á strik í kvöld þegar þeir heimsóttu Val í úrvalsdeild karla í körfubolta. Valsmenn sigruðu 86-75.
Leikurinn var jafn framan af en Þórsarar náðu að breikka bilið undir lok fyrri hálfleiks og staðan var 36-43 í hálfleik. Valsmenn voru sterkari í 3. leikhluta og jöfnuðu um hann miðjan en þegar síðasti fjórðungurinn hófst var staðan 59-59.
Valur skoraði fyrstu sjö stigin í 4. leikhluta og Þórsurum gekk ekkert að minnka muninn eftir það. Valsarar leiddu til leiksloka og sigruðu að lokum með 11 stiga mun.
Glynn Watson var öflugastur Þórsara í kvöld með 16 stig og 8 fráköst. Davíð Arnar Ágústsson skoraði sömuleiðis 16 stig.
Eftir leiki kvöldsins eru Þórsarar í 2. sæti deildarinnar með 12 stig en Valur er í 6. sæti með 10 stig.
Tölfræði Þórs: Davíð Arnar Ágústsson 16, Glynn Watson 16/8 fráköst, Luciano Nicolas Massarelli 11/4 fráköst, Tómas Valur Þrastarson 11, Daniel Mortensen 11/7 fráköst, Emil Karel Einarsson 9, Ronaldas Rutkauskas 1/10 fráköst.