Það var háspenna og dramatík að Hlíðarenda í kvöld þegar Þór Þorlákshöfn sigraði Val í framlengdum leik í 2. umferð úrvalsdeildar karla í körfubolta.
Þórsarar byrjuðu leikinn af miklum krafti, komust í 6-15 og staðan var 14-25 eftir 1. leikhluta. Í 2. leikhluta náðu Valsmenn vopnum sínum aftur. Þeir komust yfir, 30-29 og leikurinn var í járnum á næstu mínútum. Staðan var 41-37 í hálfleik, Val í vil.
Valsmenn voru skrefinu á undan í seinni hálfleikinn en undir lok 3. leikhluta gerði Þór 18-2 áhlaup og breytti stöðunni í 59-66. Munurinn var lítill í 4. leikhluta og jafnt á mörgum tölum. Valur hafði þriggja stiga forystu þegar fjórar sekúndur voru eftir af leiknum en Þórsarar tóku leikhlé og Justas Tamulis jafnaði 81-81 með sultuslakri þriggja stiga flautukörfu úr hægra horninu.
Þórsarar skoruðu sex fyrstu stigin í framlengingunni, Valur jafnaði 87-87 en Þórsarar geisluðu af hamingju á lokamínútunni og sigruðu að lokum 88-95.
Marreon Jackson var stigahæstur Þórsara með 27 stig en Morten Bulow var framlagshæstur með 26 stig, 10 fráköst og 6 stoðsendingar.
Tölfræði Þórs: Marreon Jackson 27/7 fráköst/5 stoðsendingar, Morten Bulow 26/10 fráköst/6 stoðsendingar, Jordan Semple 16/14 fráköst, Davíð Arnar Ágústsson 8/5 fráköst, Marcus Brown 7/5 fráköst, Justas Tamulis 6, Ragnar Örn Bragason 3, Emil Karel Einarsson 2.