Það voru ótrúlegar sveiflur í leik Hamars og Þórs í úrvalsdeild karla í körfubolta þegar liðin mættust í Hveragerði í kvöld. Þórsarar voru yfir nær allan leikinn en Hamar þjarmaði að þeim á lokakaflanum.
Hamar skoraði fyrstu þrjú stigin í leiknum en í kjölfarið fylgdu átján stig í röð frá Þórsurum. Staðan í upphafi 2. leikhluta var orðin 12-38 og útlitið svart hjá Hamri. Þeir náðu þó að rétta sinn hlut í 2. leikhluta og staðan var 41-54 í hálfleik.
Þórsarar voru sterkir í 3. leikhluta og í upphafi þess fjórða voru þeir komnir með 24 stiga forskot, 62-86. En Hvergerðingar voru ekki hættir. Þeir áttu tvö góð áhlaup í síðasta fjórðungnum og þegar tæpar þrjár mínútur voru eftir var munurinn kominn niður í fimm stig, 89-94. Þá girtu Þórsarar sig í brók og kláruðu leikinn 96-104.
Franck Kamgain var stigahæstur hjá Hamri með 29 stig og 11 stoðsendingar, Dragos Diulescu skoraði 23 stig, Björn Ásgeir Ásgeirsson 18 og Ragnar Nathanaelsson 12 en Ragnar tók 12 fráköst að auki. Aurimas Urbonas skoraði 9 stig og tók 11 fráköst.
Hjá Þór var Nigel Pruitt stigahæstur með 23 stig og 9 fráköst, Darwin Davis skoraði 21 stig, Jordan Semple 16 auk þess sem hann tók 13 fráköst, Tómas Valur Þrastarson skoraði 14 stig og Jose Medina 13.
Staðan fyrir lokaumferðina er þannig að Þór er í 5. sæti með 28 stig en Hamar er á botni deildarinnar með 2 stig.