Vinstri bakvörðurinn Þór Llorens Þórðarson skrifaði undir nýjan tveggja ára samning við knattspyrnudeild Selfoss á herrakvöldi deildarinnar á föstudagskvöld.
Þór var meðal bestu leikmanna Selfoss á liðnu sumri en hann skoraði fimm mörk og lagði upp tólf. Hann fékk verðlaun fyrir framfarir á lokahófi Selfoss og var einn þriggja leikmanna liðsins sem var valinn í lið ársins í 2. deildinni.
Þór var hjá Selfossi á láni frá ÍA en hefur nú skipt yfir í Selfoss og gert tveggja ára samning þar sem honum líður vel á Selfossi.
„Það er allt gott í kringum félagið og leiðinlegt að hafa ekki klárað þetta með því að fara upp. Þannig ég vil endilega hjálpa liðinu að komast upp um deild á næsta ári,” segir Þór.
„Það voru aðrir möguleikar sem komu til greina en ég taldi það best fyrir mig að vera áfram á Selfossi þar sem ég get spilað og þroskast sem leikmaður. Svo sjáum við til hvað gerist.“