Þór tapaði toppslagnum – Hamar með tvo nýja leikmenn

Tómas Valur Þrastarson. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Þór Þorlákshöfn og Hamar töpuðu leikjum sínum í úrvalsdeild karla í körfubolta í kvöld. Þór heimsótti Val að Hlíðarenda og Hamar gerði sér ferð til Keflavíkur.

Þórsarar voru sterkari í fyrri hálfleik í toppslagnum gegn Val og svöruðu öllum áhlaupum heimamanna framan af. Staðan í leikhléi var 34-39. Þriðji leikhluti var í járnum og liðin skiptust á um að hafa forystuna. Þórsarar voru skrefinu á undan í upphafi 4. leikhluta en á síðustu fimm mínútunum voru Valsmenn sterkari og þeir sigruðu að lokum 90-82.

Tómas Valur Þrastarson var stigahæstur Þórsara með 18 stig, Nigel Pruitt skoraði 16, Jordan Semple og Fotios Lampropoulos skoruðu báðir 13 stig og Semple tók 12 fráköst að auki. Darwin Davis skoraði 9 stig, Emil Karel Einarsson og Jose Medina 5 og Medina átti einnig 10 stoðsendingar. Ragnar Örn Bragason skoraði 3 stig og tók 5 fráköst.

Hamar gróf sér holu í upphafi leiks
Hamar byrjaði mjög illa í leiknum og Keflavík komst í 23-9 í upphafi leiks. Staðan var 31-17 að loknum 1. leikhluta en eftir það var leikurinn í ágætis jafnvægi. Staðan var 52-37 í hálfleik og munurinn hélst svipaður lengst af seinni hálfleik. Hamar klóraði í bakkann í 4. leikhluta en sigur Keflvíkinga var öruggur, 100-88.

Franck Kamgain var stigahæstur Hamarsmanna með 34 stig og nýju mennirnir í liðinu skiluðu fínum tölum, Litháinn Aurimas Urbonas skoraði 20 stig og tók 8 fráköst og Rúmeninn Dragos Diculescu skoraði 19 stig og tók 8 fráköst. Ragnar Nathanaelsson skoraði 14 stig og tók 13 fráköst og Daði Berg Grétarsson skoraði 1 stig.

Með sigrinum í kvöld fóru Valsarar á topp deildarinnar með 18 stig en Þór er í 2. sæti með 16 stig. Hamar er áfram á botninum án stiga.

Fyrri greinFyrstu sjúkraflutningar ársins í Landeyjahöfn
Næsta greinEldhugar og afreksfólk heiðrað