Þór Þorlákshöfn þarf einn sigur til viðbótar til þess að komast í undanúrslit úrvalsdeildar karla í körfubolta en í kvöld lögðu Þórsarar nafna sína frá Akureyri 109-104 og leiða einvígið 2-1.
Gestirnir frá Akureyri byrjuðu betur í leiknum og leiddu í leikhléi, 54-57. Davíð Arnar Ágústsson skoraði fyrstu sex stigin í seinni hálfleik og kom Þórsurum yfir og þeir tóku frumkvæðið í kjölfarið.
Þorlákshafnar-Þórsarar voru komnir með ellefu stiga forskot í upphafi 4. leikhluta, 92-81, en þó að gestirnir frá Akureyri væru aldrei langt undan náðu þeir ekki að komast yfir aftur.
Larry Thomas átti sannkallaðan stórleik fyrir Þór Þ en hann skoraði 29 stig, sendi 10 stoðsendingar og tók 5 fráköst. Callum Lawson og Styrmir Snær Þrastarson skoruðu báðir 25 stig.
Fjórði leikur liðanna verður á Akureyri á miðvikudagskvöld.
Tölfræði Þórs: Larry Thomas 29/5 fráköst/10 stoðsendingar, Callum Lawson 25/9 fráköst, Styrmir Snær Þrastarson 25, Davíð Arnar Ágústsson 10, Emil Karel Einarsson 9, Halldór Garðar Hermannsson 6/11 stoðsendingar, Ragnar Örn Bragason 3, Benedikt Þorvaldur G. Hjarðar 2.